Það er hitabylgja hjá okkur í Danmörku, þar sem hitinn fór yfir 30 gráður í gær! Við eyðum öllum okkar stundum eftir vinnu úti. Í gær þegar við sóttum strákana í vöggustofuna voru þeir á samfellunum einum saman, ég hafði fundið til stuttbuxur og stuttermaboli um morguninn en það var einfaldlega of heitt fyrir soddan klæðnað ;)
Við litla hvíta fjölskyldan erum öll vel klístruð inní sólarvörn þessa dagana sem gefur líka þennan fína glans í andlitið ;) Við mælum með þessu fyrir alla svo við séum ekki þau einu sem glönsum eins og sætabrauð úr bandarísku bakaríi ;)
Ég er byrjuð að pakka niður í huganum fyrir Íslandsferðina okkar og það fyrsta sem komið er á listann er vetrarúlpa, vettlingar, húfa, regngallar, stígvél ofl í þeim dúr.... ég vona að við höfum pláss fyrir sólina og hitann í töskunum og að við tökum hana með okkur til Íslands :)